
Í jaðri borgarinnar er skógur sem heitir Grunewald sem er eitt stærsta skóglendi Berlínar. Hann tilheyrði áður Vestur-Berlín. Í þessu skóglendi er hæsta ,,fjall“ borgarinnar. Það heitir Teufelsberg eða fjall djöfulsins og dregur nafn sitt af Teufelsee, stöðuvatni í nágrenninu. Þessi hæsti punktur Berlínar er þó ekki nema rúmir 120 m að hæð. Eins og flestar hæðir borgarinnar er Teufelsberg manngert.
Það merkilega við staðsetningu fjallsins eða hæðarinnar er að undir því eru rústir tækniherskóla nasista sem aldrei náðist að ljúka við að byggja. Hann var byggður eftir teikningum aðal arkitekts nasista, Albert Speer. Í stríðslok reyndu bandamenn að fjarlægja bygginguna með sprengiefnum en án árangurs og því þótti einfaldara að hylja hana einfaldlega með því að flytja þangað brotarústir úr gjörsprengdri Berlínarborg.
Allt til 1972 var svæðið notað sem nokkurs konar ruslahaugur fyrir sprengjurústir en þá var ákveðið að hylja hauginn með grasi og gróðri.
Á tímum kalda stríðsins var Teufelsberg notað sem miðstöð njósna Bandaríkjamanna. Vegna hæðarinnar voru skilyrði til að hlera kollega sína austan Berlínarmúrsins sérlega góð. Þar var komið upp byggingum og búnaði til verksins sem var notað allt til falls múrsins 1989. Byggingarnar standa þó enn þá en í nokkuð slæmu ásigkomulagi.
Á árunum eftir sameiningu Þýskalands hafa verið margar hugmyndir um uppbyggingu á svæðinu en engri þeirra hefur verið fylgt eftir. Byggingarnar hafa orðið fyrir skemmdaverkum og þar er allt út í veggjakroti. Engu að síður er stórmerkilegt að fara inn í byggingarnar og skoða þetta bandaríska vígi njósna á tímum kalda stríðsins. Það kostar 8€ að fá að fara þar inn en algjörlega þess virði þó ekki nema væri fyrir útsýnið.
Svæðið þar í kring er síðan sérlega gott til útivistar og fjölmargir borgarbúar sem nota svæðið fyrir langar göngu- og hjólreiðaferðir. Ef heppnin er með manni er ekki ólíklegt að rekast á villisvín. Á hæð rétt við hliðina á Teufelsberg er síðan hægt að leika listir sínar með flugdreka og þaðan er útsýnið yfir borgina stórkostlegt.
Berlínur mæla með
Teufelsberg
Teufelseechausse 10
14193 Berlin