
Þó svo að einstaklingar séu ekki enn farnir að hengja margar seríur út á svalir þá eru verslanir ljósum skreyttar og gatan að Brandenburger hliðinu, Unter den Linden, er uppljómuð með ljósum á nærri hverri einustu grein Lindartrjánna.
Jólalyktin liggur í loftinu enda spretta jólamarkaðir upp á fjölmörgum stöðum. Berlín er ekki eins og aðrar þýskar borgir, hér er enginn einn miðbær og aðeins örfáar göngugötur. Því eru margir jólamarkaðir með mismunandi áherslum.
Allir eiga það sameiginlegt að bjóða upp á jólaglögg (Glühwein) en það er líka gaman að fá sér heitt kakó með rommi eða eggjapúns. Það er afar erfitt að standast matarlegar freistingar á jólamörkuðum og yfirleitt eru pylsur og pottréttir á boðstólnum. Það sem þykir sérlega þýskt eru Reibekuchen, eða Kartoffelpuffer sem eru djúpsteiktir klattar gerðir úr rifnum kartöflum. Þetta er ljúffengt eitt og sér en ennþá betra með sætri eplamús. Það má heldur ekki missa af Raclett ostinum sem ilmar svo vel (fyrir þá sem það kunna að meta) og brenndar/ristaðar möndlur.
Það er ekki hægt að hafa tölu á þeim fjölmörgu jólamörkuðum í borginni og hver hefur sinn sjarma. Í Kulturbrauerei í Prenzlauer Berg má finna norrænan jólamarkað, gamaldags markað með mjöði við Rauða Ráðhúsið á Alexanderplatz og tvo glæsilega við Gendarmenmarkt og Schloss Charlottenburg. En núna eru það hönnunnar markaðirnir sem vekja sérstakan áhuga. Þeir eru óhefðbundir, bjóða oft upp á berlínska hönnun, tónlist og aðra afþreyingu.
Sá elsti í þessum bransa er líklegast Holy. Shit. Shopping markaðurinn sem er þetta árið til húsa í Kraftwerk á Köpernicker Str. 70 í Mitte. Yfir 150 hönnuðir sýna þar og selja sínar vörur en þar er líka DJ sem sér um tónlistina. Að sjálfsögðu er líka boðið upp á glögg, það eru jú jólin!
Fyrir þá sem vilja frekar meiri mat en hönnun þá ætti Holy Heimat á RAW svæðinu í Friedrichshain að vera tilvalinn. Þar standa sömu aðilar að jólamarkaðinum og þeir sem störtuðu Streetfood mörkuðum um alla borg. Á útvöldum dögum er Berlin Design Markt gestur á Holy Heimat markaðnumm og þá myndast skemmtileg stemmning með blöndu af hönnun, Streetfood og After-Work-Party.
Ef þetta er ekki nógu óhefðbundið má alltaf fara til Treptow þar sem The Green Christmas Markt fer fram. Þar er allt vegan, semsagt án dýraafurða, og er þetta fyrsti markaður sinnar tegundar í Berlín og þótt víða væri leitað.
Það er því af nógu að taka enda er það einstakur sjarmi Berlínar – allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi, meira að segja mismunandi jólamarkaði!
Berlínur mæla með:
Lucia Weihnachtsmarkt
Kulturbrauerei
Inngangar: Knaackstraße 97, Sredzkistraße 1 og Schönhauser Allee 36-39
10435 Berlin Prenzlauer Berg
www.lucia-weihnachtsmarkt.de
Weihnachtszauber
Gendarmenmarkt
10117 Berlin Mitte
www.gendarmenmarktberlin.de
Aðgangseyrir: 1 €
Holy.Shit.Shopping
Kraftwerk Berlin
Köpernicker Str. 70
10179 Berlin Mitte
www.holyshitshopping.de
Aðgangseyrir: 4 €
Holy Heimat
RAW svæðið í Friedrichshain
Revaler Str. 99 / á horni Dirschauer Str.
10245 Berlin Friedrichshain
www.neueheimat.com
Aðgangseyrir: 4 €
The Green Christmas Market
Glashaus in der Arena
Eichenstr. 4
12435 Berlin Treptow
www.greenmarketberlin.com
Aðgangseyrir: 2 €
Engar athugasemdir