
Þessa dagana er það eina í stöðunni að finna gosbrunn til að henda sér útí eða þá ekki yfirfulla baðströnd. Hið síðarnefnda er erfiðara þegar hver hitabylgjan hefur komið í kjölfar annarar í nærri allt sumar í Berlín.
Strandböðin við vötnin fjölmörgu umhverfis Berlín eru með misgóða aðstöðu. Auðvitað er hægt að hoppa hvar sem er útí en sumir vilja hafa sturtuaðgengi, salerni og jafnvel sjoppu til að geta keypt sér kalda drykki. Sum strandböðin bjóða einnig upp á veitingastaði, sólhlífar svo ekki sé minnst á heilu strandkörfurnar sem eru svo vinsælar við norður- og austursjóinn. Þetta er afar praktískt „apparat“ þar sem tveir geta setið þétt saman og hallað sætisbökunum aftur um leið og skemill er settur undir fæturnar – notalegra verður það varla.
Frægasta standbaðið í Berlín er Wannsee sem var byggt 1907 og var afar vinsælt hjá vestur Berlínarbúum á tímum skiptingarinnar. Strandbaðið er stórt, með klefum og sturtum en einnig svæðum sérstaklega fyrir berrassaða.
Í Wannsee og öðrum frægum strandböðum getur auðvitað orðið svolítið fullt og því hafa Berlínur augastað á mun þægilegra strandbaði í austurborginni. Það er við vatnið Orankesee sem er skammt austur af Weissensee (þar sem einnig er strandbað!). Orankesee er með þægilegt aðgengi að vatninu, grunnt langt útí sem er afar gott þegar börn eru með í för og stöndin sjálf er löng og með miklum sandi, tilvalin til að byggja heilu kastalana. Svo er auðvitað rennibraut og það sem Íslendingum finnst kannski ekkert aðlaðandi – en þeir kunna að meta sem eru búnir að vera í þessum hita í allt sumar! – það er skuggsælt svæði undir trjám.
Það kostar smávegis inná strandböðin en það borgar sig að koma snemma og næla sér í góð pláss. Svo er bara að skella sér í ískalt vatnið og njóta!
Berlínur mæla með:
Strandbad Orankesee
Gertrudstraße 7
13053 Berlin-Pankow
Engar athugasemdir