
Það er mikil hefð fyrir matarmörkuðum í Þýsklandi. Í öllum smábæjum og þorpum eru iðulega markaðir á laugardögum þar sem bændurnir koma með vörur sínar og selja milliliðalaust. Þorpsbúar nýta tækifærið og koma saman og spjalla líkt og Íslendingar í heitu pottunum. Í boði er yfirleitt ferskmeti á við grænmeti, ávexti, krydd, mjólkurvörur, kjöt og jafnvel fiskur. Markaðirnir eru á vegum bæjarfélaganna eða einkareknir. En hefðin stoppar ekki við bæjardyr stórborga á borð við Berlín. Hér eru starfræktir um 250 markaðir: Bóndamarkaðir með vörum beint frá bónda, lífrænir markaðir með lífrækt ræktuð matvæli og vörur unnar úr lífrænum efnum eða bara allt í bland.
Við Maybachufer í Kreuzberg má finna vinsælasta og ódýrasta markaðinn í borginni. Hversdagslega er hann kallaður Tyrkjamarkaðurinn því það er eins og manni sé kastað inn á miðjarðarhafsbasar þegar þangað er komið. Þar úir og grúir af alls kyns: Kryddblöndur, þurrkaðir ávextir, grænmeti í kílóavís, hnetur, ólífur, dipp og olíur en einnig vefnaðarvara, leirtau og smádót. Það er ekkert óvanalegt að koma þaðan út með tvö kíló af avokadó eða vatnsmelónum fyrir slikk.
Annar og ögn vestrænni er Kollwitzmarkaðurinn í Prenzlauer Berg. Þar er meiri áhersla á lífrænt framleiddan mat en einnig eru þar skemmtilegir matarvagnar þar sem m.a. er hægt að fá Currywurst pylsu með gulli, kampavín og trufflaðar (!) franskar eða tyrkneskt Gözleme sem er ekta tyrkneskur bóndamatur – ef maður leggur það á sig að standa í röð.
En það eru ekki bara matarmarkaðir sem skemmtilegt er að skoða í Berlín því um nokkurt skeið hefur Berlín verið helsta höfuðborg skransins. Heilu rúturnar fullar af hipsterum koma frá Danmörku í leit að gersemum á berlínskum skranmörkuðum. Þar má nefna þessa hefðbundnu á Strasse des 17. Juni eða í Mauerpark á sunnudögum. En skemmtilegra er auðvitað að skoða þá sem eru minna þekktir t.d. sá á Arkona Platz. Þar er mikið úrval af sérkennilegum hlutum. Til að mynda er í boði heill hellingur af málmvörum: Bókstafir, tölur, hurðahúnar, skrúur, snagar, hestahófar, vasar og ausur svo fátt eitt sé nefnt. En þar eru líka gæða húsgögn sem búið er að gera upp og kosta sitt – þó ekkert á íslenskan mælikvarða – en líka óuppgerð, úr dimmum kjöllurum austur-þýsku smábæjanna. Þá gerir maður góð kaup.
Berlínur hafa áður skrifað um fleiri markaði og ekki missa af þessum:
Thai-park im Preußenpark
Tyrkjamarkaðurinn
Markthalle Neun – Matarparadís
Berlínur mæla með:
Türkenmarkt am Maybachufer – Tyrkjamarkaðnum við Maybachufer
Þriðjudaga og föstudaga frá kl. 11 – 18.30
Maibachufer, 10999 Berlin – Neukölln
www.tuerkenmarkt.de
Kollwitzmarkaðurinn í Prenzlauer Berg
Laugardaga frá kl. 9 – 16
Kollwitzstraße 1
10405 Berlin – Prenzlauer Berg
Markaðurinn á breiðgötu 17. júní – Der Berliner Trödelmarkt
Laugardaga og sunnudaga frá kl. 10 – 17
Straße des 17. Juni
10623 Berlin – Tiergarten
www.berlinertroedelmarkt.com
Flóamarkaðurinn í Mauerpark
Sunnudaga frá kl. 11 – 18
Bernauer Strasse 63-64
13355 Berlin – Mitte
www.flohmarktimmauerpark.de
Flóamarkaðurinn við Arkonaplatz
Sunnudaga frá kl. 10 – 16
Arkonaplatz
10435 Berlin – Mitte
www.troedelmarkt-arkonaplatz.de